Einn. Gamli góði Villi mætti fjölmiðlamönnum í gær einn síns liðs. Sexmenningarnir fræknu, sem segjast þó styðja hann, læðupokuðust út um hinar og þessar útgönguleiðir Valhallar og forðuðu sér frá áleitnum og erfiðum spurningum fréttamanna. Skildu gamla manninn eftir einan hjá úlfunum.
Einn. Þegar gengið var á þá sjálfstæðismenn sem í náðist eftir Valhallarfundinn í gær örlaði hvergi á stuðningi við verðandi borgarstjóra Reykjavíkur. Þeirra á meðal var forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Einn. Úr leiðurum blaðanna, Morgunblaðið ekki undanskilið, barst heldur ekki neinn stuðningur.
Einn. Á bloggsíðunum fór ekki mikið fyrir stuðningsyfirlýsingum, ekki einu sinni frá sjálfstæðismönnum.
Ekki aleinn. Einn vill þó bera blak af Vilhjálmi: Árni Johnsen. Hann treystir gamla góða Villa og er búinn að átta sig á því að hann hefur bara verið valinn sem fórnarlamb; svona rétt eins og Árni sjálfur forðum daga. Þeir Villi gerðu ekki neitt rangt; einhver ákvað bara að leiða þá til slátrunar – líklega fjölmiðlamenn.
Þeir eiga það sameiginlegt flokksbræðurnir að þeir lentu í þessu.