Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.
Halldór Laxness, Innansveitarkróníka, 9. kafli.
Svo oft hefur verið vitnað í ofangreindan texta nóbelsskáldsins okkar að ætla má að Íslendingum sé hann allvel kunnur og jafnvel má ætla að þeir hafi nokkuð dálæti á textanum, sem gæti bent til þess að þeim fyndist hann ekki með öllu tilhæfulaus. En hvernig sem því líður stendur skilgreiningin óhögguð og hinir sömu Íslendingar telja öldungis óþarft að breyta háttum sínum að nokkru leyti. Hinn rótgróni íslenski þverhaus stendur sem bjargið alda hvað sem yfir ríður.
Nýlega var greint frá því að Matvælastofnun hefði svipt kúabú í Borgarfirði og Reykhólahreppi starfsleyfi „vegna brota á reglum um hollustuhætti við framleiðslu mjólkur og sláturgripa.“ Í fjölmiðlum, m.a. sjónvarpi allra landsmanna, voru birtar myndir frá aðstæðum á kúabúinu í Borgarfirði og af þeim mátti öllum ljóst vera hvílíkur sóðaskapur var þar látinn líðast. RÚV lýsti ástandinu svona:
Fundið var að hreinlæti við handþvottaaðstöðu, mjaltaþjónn var skítugur, for var um allt fjós og jafnvel þótt mokað hefði verið út var for upp um alla veggi og gripir drulluskítugir. Þá var þrifum á mjólkurtanki mjög ábótavant. Að auki voru um 90 gripir í fjósinu en það er aðeins fyrir 64. Þetta leiði til þess að skítur safnist hratt upp og fjósið verður ein allsherjar for á einum degi, eins og segir í [bréfi Matvælastofnunar til Brúarreykja]. Gripir leggist í forina með tilheyrandi áhættu fyrir matvælaöryggi.
Örfáum dögum seinna átti Fréttablaðið viðtal við Borgarfjarðarbóndann sem segist vera beittur valdníðslu með afturköllun Matvælastofnunar á starfsleyfi kúabúsins og að þar með sé fótum kippt undan fjárhag fjölskyldunnar. „Það á bara að drepa mann lifandi,“ segir bóndinn. „Þetta er bara valdníðsla af hálfu Matvælastofnunar“.
Auðvitað er líklegt að aðgerð Matvælastofnunar hafi áhrif á afkomu fjölskyldunnar, en hvar hefst þessi atburðarás? „Hann getur ekki neinum öðrum um kennt en sjálfum sér,“ segir Guðmundur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsamtaka Vesturlands og telur yfirklór bóndans vera „tómt rugl“. Í fréttum kemur einnig fram að bóndinn hafi ítrekað verið varaður við, en ávallt haft þær aðvaranir að engu. Þegar svo kemur að því að taka afleiðingum vanrækslusyndanna, sér hann þann kost grænstan að rífa kjaft og segist vera beittur valdníðslu. Dæmigerður þverhaus sem neitar að viðurkenna eigin vanrækslu og reynir að varpa sök á aðra. Þetta er líka kallað að berja höfðinu við steininn.
Hljómar þetta kunnuglega?
Viðbót 9. júlí 2018
Í byrjun júlí 2018 dæmdi Héraðsdómur Vesturlands búfjárhaldarann á Brúarreykjum á Vesturlandi bótaskyldan gagnvart hlutafélaginu Brúarreykir, sem átti búið. Bótaskylda búfjárhaldarans er komin til vegna aðgerðaleysis hans eftir að dreifing afurða mjólkurbúsins Brúarreykja var bönnuð með ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) árið 2013 vegna lélegrar aðstöðu og ólöglegrar notkunar á dýralyfjum.
Hlutafélagið Brúarreykir bar því við
að [búfjárhaldarinn] hefði séð um allan daglegan búrekstur frá árinu 2011 auk þess að vera hluthafi og prókúruhafi. Byggt var á því að með athafna- og aðgerðaleysi sínu hefði hann bakað búinu tjón. Það fólst í því að í stað þess að vinna að úrbótum á aðbúnaði til að tryggja áframhaldandi sölu afurða frá búinu hefði [búfjárhaldarinn] einbeitt sér að því að véfengja niðurstöður MAST. Með því hefði hann aukið á tjón búsins í stað þess að lágmarka það. […]
Bótaábyrgð var felld á Bjarna og þarf hann að auki að greiða rúma milljón í málskostnað.
Fréttablaðið greindi frá 9. júlí 2018.
Það var til einhvers að þverskallast – eða hitt þó heldur.