Vörubílstjórar hafa undanfarna daga haft uppi mótmæli með því að stífla alfaraleiðir með atvinnutækjum sínum. Í upphafi var látið í veðri vaka að ástæðurnar væru hækkandi eldsneytisverð og reglur um hvíldartíma.
Við sem ökum um mjóslegna vegi þessa lands höfum ekki áhuga á að mæta stórkeröldum með syfjaða ökumenn við stýrið og þess vegna á að virða þessar reglur; þær eru nauðsynlegar. Það væri meiri ástæða til að mótmæla því að samgönguráðherra sé að reyna að fá þær rýmkaðar vegna þrýstings frá vörubílstjórum. Ég hef ekið um Ísland þvert og endilangt og aldrei verið í vandræðum með að komast á salerni, fá mér hressingu eða hvíla mig. Ég blæs því á þus bílstjóranna um aðstöðuleysi.
Eldsneytisverð hefur hækkað á heimsmarkaði og einnig hefur gengi íslensku krónunnar fallið. Af þessu leiðir hærra verð fyrir eldsneytið. Stöð 2 greindi frá því í fréttatíma að eldsneytisverð hér á landi væri með því lægsta sem gerist á Norðurlöndunum og hlutur ríkisins minnstur hér í samanburði við grannþjóðirnar. Ef opinberar álögur á eldsneyti verða lækkaðar getur það ekki leitt af sér annað en niðurskurð annars staðar. Slík lækkun kemur helst stórnotendum til góða, en síður þeim sem aka um á venjulegum fólksbílum. Þar með var ekki lengur innistæða fyrir neinni samúð með trökkdræverum. Hagsmunir þeirra eru öndverðir hagsmunum hins almenna launamanns.
Þessir menn eru að villa á sér heimildir. Þeir eru ekki launþegar hjá öðrum. Þetta eru verktakar sem eiga og reka sína bíla sjálfir. Hinn almenni launamaður á enga samleið með þeim. Spyrja má af hverju þeir hækki ekki taxta sína til að mæta hækkandi kostnaði? Svarið gæti verið að þeir séu í bullandi samkeppni hver við annan.
Aðgerðir vörubílstjóranna hafa fyrst og fremst bitnað á almennum borgurum og á stundum stofnað þeim í hættu. Þetta eru nákvæmlega sömu aðferðir og hryðjuverkamenn nota, enda eru þetta hryðjuverk. Lögreglan hefur sýnt þeim óvenju mikið langlundargeð og í raun hefði átt að vera búið að stoppa þessa vitleysu fyrir löngu.
Þessar aðgerðir ber að fordæma og framganga forsprakkans, Sturlu Jónssonar, er honum til háborinnar skammar. Hann hefur þröngan málstað sérhagsmuna að verja, en þykist vera frelsari þjóðarinnar. Hann slær um sig með óljósum frösum og bulli ef hann er krafinn svara. Þetta var opinberað öllum landslýð í Kastljósi í gærkvöldi. Hann hefur enga innistæðu fyrir því að segjast hafa þjóðina á bak við sig. Því fer víðsfjarri!