Þannig fer Pétur Blöndal með sömu tugguna hvað eftir annað í fjölmiðlum. Að Tjarnarkvartettinn hafi sótt Binga inn í raðir þess meirihluta sem myndaður var eftir kosningarnar 2006 og því sé enginn munur á meirihlutaskiptum í haust og núna í janúar. Það liggur hins vegar fyrir og má lesa í fjölmiðlum að upp kom ágreiningur á milli Sjálfstæðismanna, sem vildu selja REI, og Binga sem ekki vildi selja. Hanna Birna orðaði þetta einhvern veginn þannig á tröppunum hjá Villa að Bingi hefði ekki viljað fallast á þeirra sjónarmið. Hún virtist ekki hafa áttað sig á því í tíma að staðan var ekki sjö gegn einum, heldur hafði Bingi fjöregg meirihlutans í hendi sér. Að lesa ekki stöðuna betur en þetta getur ekki verið ávísun á forystuhlutverk í stjórnmálum.
Á hinn bóginn fór Ólafur Friðrik yfir til Sjálfstæðismanna í janúar án nokkurs ágreinings við þann meirihluta sem hann var guðfaðir að. Sjálfstæðismenn buðu honum hins vegar borgarstjórastól og rýmdu fúslega fyrir málefnalista Ólafs með því að ýta sínum eigin út af borðinu. Hanna Birna mátti til dæmis éta ofan í sig skipulagsmálin og Gísli Marteinn flugvöllinn. Allt til að ná völdum á ný. En hvílíkur Phyrrosarsigur!
Það sér auðvitað hver maður að þarna er allnokkur munur á og ég er viss um að Pétur Blöndal sér það líka, því mér dettur ekki í hug að frýja honum vits. En þess meira gruna ég hann um gæsku sem ég heyri hann oftar tönnlast á sínum heimatilbúnu öfugmælum um þessa atburðarás.
Og svo er það garmurinn hann Villi. Lánlausari mann getur vart í íslenskri pólitík. Þetta er eiginlega átakanlegt upp á að horfa; eftir langan og nokkuð farsælan, en átakalítinn, feril sem borgarfulltrúi í Reykjavík og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga þá er hann skyndilega á berangri með allt niðrum sig. Ekki verður betur séð en að hann sé skólabókardæmi um Péturslögmálið (The Peter’s Principle) um að sérhver maður hafi tilhneigingu til að stefna hærra og fara fram úr getu sinni. Vilhjálmur hefur vafalaust verið ágætur borgarfulltrúi, en hann var afleitur borgarstjóri og það væri glapræði að hleypa honum í þann stól aftur.
En það er ekki nóg með að vesalings Villi hafi augljóslega farið fram úr getu sinni. Dómgreindin og siðferðiskenndin hafa algjörlega yfirgefið hann. Hann fer með ósannindi í fjölmiðla og heldur því fram í fullri alvöru að hann hafi axlað ábyrgð með því að missa borgarstjóra-stólinn síðastliðið haust. Ég treysti mér ekki til að lýsa þessari frammistöðu betur en sjálfstæðismaðurinn Dharma.
Nei, Villi, þetta kallast EKKI að axla ábyrgð, álfurinn þinn…
Það að þú skulir hafa misst borgarstjórastólinn er ekki dæmi um hvernig þú axlaðir ábyrgð. Þú misstir borgarstjórastólinn því samráðsmaðurinn hljóp í fangið á sósjalistunum! Þú hefðir glaður viljað sitja áfram.
Þú skilur þetta ekki. Ég stórefast hreinlega um að þú hafir gáfnafarið til að vera yfirhöfuð í stjórnmálum!
Það að þú skyldir missa borgarstjórasætið er AFLEIÐING þess sem þú gerðir. Þú axlaðir ekki eitt né neitt. Þú bara vældir og laugst í fjölmiðlum.
Það að AXLA ÁBYRGÐ hefði verið ef þú hefðir sagt af þér strax í október. Þá hefði frumkvæðið verið þitt. Það hefði verið að axla ábyrgð.
Þú getur EKKI sagt að þú hafir axlað ábyrgð þegar þér var sparkað úr stólnum í hvern þú áttir í sjálfu sér ekkert erindi til að byrja með. Þú hafðir hreinlega ekkert um málið að segja.
Þú ert í vinnu fyrir kjósendur, þú brást vinnuveitanda þínum og lýgur svo að honum til að hylja eigin spor. Slíkt er brottrekstrarsök, en því miður höfum við engin úrræði til að reka þig, önnur en að biðja þig um að segja af þér.
Þú ert líklegast mesti skúrkur íslenskra stjórnmála fyrr eða síðar. Þú ert valdasjúkur og veruleikafirrtur, þú berð nákvæmlega ekkert skynbragð á stjórnmál. Þú ert lítill kerfiskall sem skilur ekki hvert umboð þitt er. Mikil er skömm þín og þú átt enga, nákvæmlega enga, samúð skylda.