Björn vill dæma óþægilega umræðu úr leik

Björn Bjarnason var í Silfri Egils í gær og þar barst m.a. skipun dómara norðan og austan í tal.  Björn segir um þessi orðaskipti á bloggsíðu sinni að Sigurður Líndal hafi…

„skrifað sig frá málinu, þegar hann hafi tekið til við að líkja stjórnarathöfn Árna M. Mathiesens við stjórnarhætti nasista – með slíku gerðu menn sig einfaldlega marklausa og þannig væri komið fyrir Sigurði Líndal í þessu máli.“

Í framhaldinu vitnar Björn síðan í mál Daniel Hannan, þingmanns á Evrópuþinginu fyrir breska íhaldsmenn, sem hafði „verið vikið úr þingflokki European People’s Party (EPP) á Evrópuþinginu fyrir ummæli, sem voru túlkuð á þann veg, að hann líkti gjörðum þingforseta við valdatöku nasista.“ Augljóst er að Björn leggur þessi mál að jöfnu þó að hann hirði það eitt upp af vefsíðu Hannan sem hentar hans málflutningi og þess vegna sleppir hann t.d. þessu:

My own Chief Whip, Den Dover, was kind enough to see me afterwards and reassure me that nothing I had said was against Conservative policy, that our party is strongly in favour of a referendum and that, in any case, we are all pledged to leave the EPP next year. If the EPP excluded me, he added, that was their business. As far as he was concerned, I would sit as a Conservative and a member of the Conservative delegation, in receipt of the Tory Whip and as a re-selected Tory candidate.

Með öðrum orðum: sínum augum lítur hver á silfrið; menn eru ekki á einu máli um réttmæti brottvikningar Hannan úr EPP. Og ekki eru íhaldsmenn á þeim buxunum að skipta út sínum manni.

En hvað sagði Sigurður Líndal? Í grein í Fréttablaðinu 15. janúar 2008 (bls 16) ræðir hann um leiðara Morgunblaðsins frá 10. janúar 2008 þar sem því er hafnað að tilvist dómnefndar setji veitingarvaldinu einhver takmörk, það komi ekki fram í lagatextum og nefndin sé að draga til sín vald sem hún hefur ekki. Um þetta segir Sigurður svo:

„Nærtækast væri að líta á þessi orð sem merkingarlaust rugl, en ef taka á mark á þeim eru lög ekki annað en tæki valds sem lýtur engum takmörkunum. Hér skín í taumlausa vildarhyggju þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er. Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja. Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýzkalandi eftir 1930.“

Hér verður að ítreka að Sigurður er að ræða leiðara Morgunblaðsins og þau sjónarmið sem þar eru sett fram, en ekki gjörðir Árna Mathiesen, setts dómsmálaráðherra. Það er því rangt og útúrsnúningur hjá Birni að Sigurður sé að líkja stjórnarathöfnum Árna Mathisen við stjórnarhætti nasista.

Hins vegar er á það að líta að það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Ef valdsmenn ganga fram með svipuðum hætti og nasistar gerðu á fjórða áratug síðustu aldar, þá er ekkert að því að segja það og það getur ekki dæmt neinn frá neinni umræðu, þó að Björn segi að svo skuli vera. Björn er hvorki hlutlaus né óskeikull dómari þar um og hefur ekkert umboð til að kveða upp slíkan dóm. Fullyrðingar hans í þá veru eru því með öllu marklausar og að engu hafandi. Hann er auðvitað að reyna að kveða niður óþægilega gagnrýni sem erfitt er að verjast með öðrum aðferðum en þeim bolabrögðum sem hann beitir.