Strámann og Grámann

Styrmir Morgunblaðsritstjóri, sem hefur líklega aldrei náð sér eftir kalda stríðið, stundar í hverjum leiðaranum eftir annan leik sem sumir Sjálfstæðismenn hafa gert að viðteknum vinnubrögðum sínum síðustu misserin. Þessi leikur, sem má kannski best lýsa með orðtakinu „við skulum frekar en verða bit, velta röngu og svíkja lit“, hófst til sérstakrar virðingar í valdatíð Davíðs Oddssonar, sem lýsti einu afbrigði hans í sjónvarpsviðtali.  Eftir það viðtal var komið nafn á þetta afbrigði: smjörklípuaðferð.  Finnur Vilhjálmsson bregður nýju ljósi á þessa eftirlætisiðju Styrmis og hans nóta í athyglisverðri grein og þar kemur í ljós að aðferðin er þekkt úr úr rök- eða mælskulist og kallast að búa til strámann.

Styrmir hefur ítrekað haldið því fram að Samfylkingin standi á bak við sérstaka aðför sem hann segir gerða að Ólafi F. Magnússyni án þess að hann geri minnstu tilraun til að rökstyðja þessar fullyrðingar sem eru auðvitað algjörlega tilhæfulausar.  Engir hafa verið duglegri að gera veikindi Ólafs að umræðuefni en einmitt Sjálfstæðismenn.  Engu að síður situr Styrmir úti í móa og mótar sinn strámann af hatramri elju.

En það sitja fleiri við strámannsgerð en nátttröllið í Hádegismóum. Í öðru garðshorni situr Björn Bjarnason og tekur strámanni Styrmis fagnandi og gerir að sínum; grámanni. Björn reynir heldur ekki að styðja grámann sinn rökum, en fimbulfambar og fullyrðir út í eitt út frá þessum uppvakningi þeirra Styrmis. Þetta er heldur grátt gaman hjá þeim félögum og sýnir hversu ómerkilegur málflutningur þeirra er.  Tilgangurinn helgar meðalið.  Ég snýti mér í forakt.