Að berja höfðinu við steininn

Hálfsannleikur oftast er

óhrekjandi lygi.

Stephan G. Stephansson

Það er einkenni þeirra, sem hafa vondan málstað að verja, að beita útúrsnúningi, hálfsannleik, hártogunum og þrætubókarstagli hvenær sem komið er að kjarna slíkra mála. Þetta er löngu orðin viðtekin venja stjórnarherra þessa lands, og þeirra sem helst hoppa í kringum þá. Í hverju málinu á fætur öðru hefur ríkisstjórn landsins misboðið þingi og þjóð með hinum fáránlegasta málatilbúnaði. Og þegar allt er komið í algleyming og aðeins saumað að málflytjendum, þá þeyta þeir bullinu í kringum sig eins og öflugir skítadreifarar. Þannig verður svart iðulega hvítt í málflutningnum og öfugt. Sem dæmi má nefna öryrkjamál, eftirlaunamál þingmanna og ráðherra, fjölmiðlamál og nú síðast Íraksmál. Fáein orð um það síðastnefnda.

Kjarni málsins er þessi:

Bandaríkjamenn sóttust eftir samþykki Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að ráðast inn í Írak, en fengu ekki. Til að hrinda sínum staðföstu áformum í framkvæmd, engu að síður, fengu þeir aðrar þjóðir til að styðja stríðsáform sín – söfnuðu liði. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson samþykktu stuðning Íslands við þessi áform án þess að bera þá ákvörðun undir Alþingi eða utanríkismálanefnd þingsins, sem þeim bar þó lagaskylda til. Ákvörðunin var heldur ekki formlega samþykkt í ríkisstjórn, eða í þeim þingflokkum sem standa að ríkisstjórninni. Með því að ákveða stuðninginn, í hverju sem hann fólst, voru menn að skipa sér meðvitað í fylkingu – fara á lista. Það er svo auðvitað framkvæmdaratriði hvort útbúinn er sýnilegur listi yfir þær þjóðir sem gengu til liðs við stríðsáform Bandaríkjanna og hvort hann er settur á vefsíðu hér eða tekinn út þar. Með því að fylla þennan flokk var gengið gegn ákvörðunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þó aðili að. Það er alvarlegt og meiri háttar utanríkismál út af fyrir sig. Í því sambandi má minna á að Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt Íraksstríðið ólöglegt.

Forsprakkar Íraksstríðsins, Bush og Blair, báru sín stríðsáform undir þjóðþing landa sinna og fengu samþykki þeirra til framkvæmda. Þetta gerðu þeir Davíð og Halldór ekki þrátt fyrir að ríkisstjórn þeirra styðjist við öruggan og sauðtryggan meirihluta á þingi. Hvers vegna ekki? Voru þeir orðnir svo blindaðir af hroka valdsins að þeim fannst ekki taka því að fara með málið fyrir Alþingi og utanríkismálanefnd þess? Eitt dæmi um bullið úr mykjudreifurum stjórnarliðsins er að gagnrýnendur ákvörðunarinnar séu að hengja sig í formsatriði. Hvaða formsatriði? Lög og reglur um þingsköp, leikreglur lýðræðisins – auðvitað eru það formsatriði. Er allt í lagi að gefa skít í þau þegar henta þykir? Eftir hverju á að dæma þegar búið er að gera lög og reglur að nánast óþörfum formsatriðum?

Í nauðvörn fyrir dæmalausu athæfi sínu og endemis klúðri hafa þeir Davíð og Halldór ásamt nokkrum staðföstum og viljugum undirsátum sínum, hrakist um víðan völl í málflutningi sínum. Í þeirri vörn hafa þessir pótintátar náð nýjum hæðum í bulli ergelsi og firru og var þó langt seilst í þá átt í sumar sem leið. Eftir allan hamaganginn stendur liðið eftir með allt niðrum sig og fálmar út í loftið eftir hálmstráum hér og þar. Haldi þessir menn að íslenskur almenningur trúi þeirra dæmalausu þvælu og sjái ekki í gegnum ruglandann, þá fer því víðsfjarri, eins og skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt. En þessir tréhestar læra aldrei neitt – sennilega af því að þeir eru svo uppteknir við að berja höfðinu við steininn.