Barbabrella

Sumir kynnu að freistast til að taka undir með sjálfumglöðum Davíð og segja að afturköllun fjölmiðlalaganna væri snjöll lausn. Varla þó Björn Bjarnason sem kallaði slíkar æfingar brellur á vefsíðu sinni 3. júní. Fróðlegt verður að sjá hvaða nafngift hann kemur með næst. En reyndar er þessi niðurstaða ósigur fyrir ríkisstjórnina og þá fyrst og fremst núverandi oddvita hennar, Davíð Oddsson, sem hugðist þröngva hefndarfrumvarpi sínu upp á þjóðina sem lögum. Forsetinn sló á puttana á honum og nú reynir Davíð að bjarga andlitinu. Hann þorir ekki með málið fyrir þjóðina, enda veit hann sem er að þar tapar hann því endanlega.

Sjálfsagt fær hann þessa frumvarpsnefnu samþykkta á sumarþinginu, rétt eins og fyrri útgáfuna sem smó naumlega í gegnum þingið í vor. Það breytir ekki öllu. Norðurljós fara í mál og dómstólar munu kveða upp dóm. Sagan mun svo kveða upp sinn dóm um Davíð og vinnubrögð hans og hún verður ekki eingöngu skrifuð af vildarvinum. Það er ekki alveg víst að söguritarar framtíðar missi sig í lofgjörð um snilld þessa millileiks.