Nokkrir vinir Jóns Steinars Gunnlaugssonar hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun til stuðnings þess að fjármálaráðherra skipi hann sem hæstaréttardómara. Þeir halda því fram að Jón hafi afburða þekkingu á lögum og eiga það að heita rök fyrir aðgerðinni.
Öll opinber vitneskja bendir til þess að meinta afburðaþekkingu Jóns Steinars sé helst að finna í hugskoti vina hans. Hæstiréttur er, til að mynda, þessu öldungis ósammála og hefur tiltekið a.m.k. þrjá aðra umsækjendur um dómarastarfið hæfari Jóni Steinari. Ekki er annað að sjá en að rétturinn hafi borið sig faglega að útgáfu matsins, enda ekki annars að vænta úr þeirri átt. Þegar þessi niðurstaða er skoðuð skulu menn hafa í huga að það eru ekki vinstri menn sem ráða lögum og lofum í Hæstirétti.
Það er hins vegar öllum ljóst að brigdeklúbbur Davíðs og Jóns Steinars, ásamt nokkrum öðrum einkavinum, hefur mikinn áhuga á að gera hann að hæstaréttardómara. Þeir rembast nú eins og rjúpan við staurinn við að tína til einhver rök til framdráttar vininum. Þeirra málflutningur er þó fráleitt sannfærandi, enda engin haldbær rök fyrir þessari firru.
Jón Steinar Gunnlaugsson á ekkert erindi í Hæstarétt Íslands. Hann er alltof pólitískur, einstrengingslegur og umdeildur til þess. Menn mega ekki láta glepjast af ágengri nærveru hans í fjölmiðlum; þar tróna nú hreint ekki mestu mannvitsbrekkurnar. Verði Jón skipaður hæstaréttardómari mun réttinn setja mikið niður og trúverðugleiki hans mun bíða verulegan hnekki.
Á síðasta ári skipaði Björn Bjarnason frænda Davíðs Oddssonar í embætti hæstaréttardómara og braut þar með lög og reglur. Það athæfi laskaði Björn verulega sem stjórnmálamann, enda kaus hann að gefa boltann á Geir Haarde að þessu sinni. Ég hef þá trú að Geir sé stjórnmálamaður af öðru sauðahúsi en ofstækismaðurin Björn. Því tel ég líklegt að hann virði gildandi lög og reglur varðandi þessa embættaveitingu og fari eftir áliti Hæstaréttar. Kannski hefur aldrei reynt eins mikið á Geir Haarde og einmitt núna. Með ákvörðun sinni getur hann gert sig gildandi sem sá ábyrgi og heiðarlegi stjórnmálamaður sem hann virðist vera – eða svarið sig inn í bridgeklúbbinn.