Þrautakóngar þrælsóttans

Björn Bjarnason hitti naglann á höfuðið – að vísu óvart – þegar hann kallaði það brellu að breyta nýsettum fjölmiðlalögum á Alþingi. Þegar honum varð ljóst að brellunni hafði verið hrint í framkvæmd reyndi hann í ofboði að klóra í bakkann og breytti vefsíðu sinni til að fela fyrri skoðun sína á málinu. Það reyndist of seint í rassinn gripið þar sem net- og fjölmiðlar höfðu þá veitt þessu eftirtekt og birt tilvitnanir í upphafleg skrif Björns. Nú liggur það fyrir að Björn vílar ekki fyrir sér að ritskoða pistla á vef sínum eftir því sem pólitískir vindar blása hverju sinni. Það er því ómögulegt að vísa til þessara skrifa nema í vitna viðurvist.

Skýringar Björns á þessum gæsalappaæfingum eru með ólíkindum fáránlegar og það er satt að segja dapurlegt að horfa á vel gefinn mann eins og Björn Bjarnason hrekjast í þá ólánlegu stöðu að eiga sér enga undankomuleið aðra en barnalegt bull. Hann er hins vegar ekki einn um það því samráðherrar hans mega líka þola þessi slæmu örlög. Slíkur er þrælsótti þeirra við Davíð Oddsson að þeir kjósa að fylgja honum út í hvaða forarvilpu sem er gagnrýnislaust. Það sama gildir auðvitað um stjórnarþingmennina alla, nema kannski Kristinn H. Gunnarsson, sem er eini stjórnarþingmaðurinn sem þorir að standa í lappirnar og hafa sjálfstæða skoðun.

Það mætti kannski segja að lítið leggðist fyrir kappana, ef það orð átti þá einhvern tímann við um þetta lið.