Rökleysur spunakerlinganna

Í siðmenntuðu ríki hefði Pétur Gunnarsson, af öllum mönnum, örugglega talist vanhæfur til að greiða atkvæði um fréttastjóra útvarps. Er þetta ekki sami maðurinn og sendi settum fréttastjóra og einum umsækjendanna, Friðriki Páli Jónssyni, argvítugt skammarbréf fyrir skömmu af því að honum fannst fréttastofan þjarma of mikið að forsætisráðherra? Jú, sá er maðurinn – mætti gleiður til atkvæðagreiðslu, enda stund hefndarinnar upp runnin.

Trúir því einhver að ríkisútvarpið hafi nauðsynlega þurft að fá rekstrarmann í stöðu fréttastjóra útvarps? Sagt er að fréttastofan hafi farið fram úr fjárheimildum. Hverjir ættu að bera ábyrgð á því? Fréttastofa útvarps heyrir undir svonefnt fréttasvið sem Bogi Ágústsson stýrir. Ber hann ekki ábyrgð? Var rekstrarreynsla hans lykilatriði þegar hann var ráðinn? Undir sama svið heyrir fréttastofa sjónvarps sem stýrt er af nýlega ráðinni Elínu Hirst? Er hún rekstrarmaður? Það var þó öllu meiri áhersla lögð á rekstrarþáttinn í auglýsingu þegar hún var ráðin.

Skipulega séð væri auðvitað eðlilegast að yfirstjórn fréttasviðsins sýslaði með rekstrarþáttinn fyrir báðar fréttastofurnar svo að fréttastjórar og fréttamenn hefðu frið til að segja okkur fréttir. Eða var það aldrei meiningin? Starfar ekki framkvæmdastjóri fjármáladeildar á RÚV? Hvað er hann að sýsla? Ber hann enga ábyrgð á neikvæðum rekstrartölum? Svo mun vera sérstakur framkvæmdastjóri útvarps, handvalinn af núverandi valdhöfum. Spyrja má um ábyrgð hans á rekstri útvarpsins. Og loks er það æðsti strumpur, Markús Örn útvarpsstjóri. Er honum ekki borgað fyrir að bera ábyrgð á öllu saman? Hvaða rekstrarreynslu hafði hann þegar honum var plantað í stól útvarpsstjóra? Hvernig hefur hann brugðist við þessum mikla rekstrarvanda fréttastofu útvarps sem nú er allt í einu aðalatriði máls? Þarna er hver silkihúfan upp af annarri og allir eiga að sýsla í rekstri. Er þá nauðsynlegt að ráða fréttastjóra útvarps úr röðum rekstrarmanna?

Markús Örn er einn af þeim sem trúir á nauðsyn þess fá rekstrarmann sem fréttastjóra útvarps og lýsti því fjálglega í Kastljósi að þar stæði Auðunn Georg öðrum framar. Í dag fjallar Fréttablaðið um rekstrarreynslu hans og virðist hún helst hafa falist í umsjón með sölustarfi nokkurra umboðsfyrirtækja í Suðaustur-Asíu. Hann hafði engin mannaforráð og fór ekki með rekstur fyrirtækisins. Í munni Markúsar hafði Auðunn Georg „verið forstöðumaður eins framsæknasta fyrirtækis á Íslandi“ og „Auðun Georg hefur verið að stýra þessari starfsemi fyrir þetta stóra fyrirtæki sem er orðið alþjóðlegt fyrirtæki og hefur verið að sækja út á erlendum mörkuðum, fyrir nátttúrlega hönd forystu þess,“ Hvað vissi Markús Örn um raunverulega rekstrar- og stjórnunarreynslu Auðuns? Hvað stóð í umsókn Auðuns? Las Markús hana?

Kannski voru þau sýndarrök Markúsar hlægilegust að Auðunn Georg væri ungur og sprækur en fimmmenningarnir, sem Bogi valdi úr hópi umsækjenda, á miðjum aldri og kannski rúmlega það. Menn eldast við að öðlast reynslu og það er erfitt að komast hjá því. En hver ætlar að stýra RÚV þegar það gengur í endurnýjun lífdaganna í takt við ný útvarpslög? Enginn annar en Markús Örn, sem er að vísu bráðum 62 ára gamall, en samt ótrúlega ferskur! Og sérlega rökfastur.

1 Comment

  1. glæsileg skrif, ég er sammála hverju orði og meira en það!

Comments are closed.