Nú reynir á Geir

Nú er spennandi kosninganótt að baki og niðurstaðan liggur fyrir: stjórnin hélt velli með mjög nauman meirihluta og sú staða skrifast aðallega á meingallað og óréttlátt kosningakerfi.

Sigurvegarar kosninganna eru Sjálfstæðisflokkur og Vinstri hreyfingin grænt framboð, en Samfylking og Framsókn biðu ósigra. Samfylkingin tapaði í öllum kjördæmum og hlýtur það að vera áhyggjuefni, jafnvel þó benda megi á að flokkurinn hafi stöðugt unnið á undir lok kosningabaráttunnar. Lexía Samfylkingarinnar hlýtur að vera sú að nú eigi menn að snúa bökum saman og vinna vel saman sem órofa heild allt næsta kjörtímabil.

Útreið Framsóknar hefur tæpast verið verri frá upphafi vega. Fyrir kosningarnar höfðu ýmsir framsóknarmenn, m.a. tveir ráðherrar flokksins (Guðni og Valgerður) talað mjög skýrt um að flokkurinn yrði að fá góða útkomu úr kosningum til að geta haldið áfram stjórnarþátttöku með Sjálfstæðisflokknum. Það kom því ekki á óvart á kosninganótt að formaður Framsóknarflokksins talaði í þá veru að það væri tæpast lýðræðislegt fyrir flokkinn að setjast í stjórn eftir þá útreið sem var að birtast í tölum næturinnar. Hitt var býsna undarlegt að heyra bæði hann og Guðna varaformann hringsnúast í afstöðu sinni og tala í þveröfuga átt eftir að ljóst var að stjórnin félli ekki. Þetta er auðvitað afskaplega ótrúverðugt og sýnir niðurlægingu Framsókn hvað skýrast. Þar er engin reisn eftir og því er kannski bara best að Framsókn renni sitt skeið á enda og minnki enn meira eða hverfi alveg í næstu kosningum.

Mér finnst ekki koma til greina að mynda vinstri stjórn (Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar) við þessar aðstæður. Framsókn var hafnað og á ekki að taka þátt í stjórn. Samfylking og Vinstri grænir gagnrýndu Framsókn réttilega og eiga því ekkert að biðla til þeirra með eitt eða neitt. Sterkasta stjórnin yrði auðvitað stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og ef rétt væri á spilum haldið gæti slík stjórn orðið býsna farsæl. Forspár Ögmundar Jónassonar um slíka stjórn eru fráleitar og með öllu órökstuddar.

Eitt er víst: Geir er með trompin á hendi og nú reynir fyrst verulega á hæfni hans sem stjórnmálaleiðtoga. Hvernig spilar hann úr þessari stöðu? Reynist hann skarpskyggn eða glámskyggn á framtíðina? Sér hann óvænta möguleika og snjalla leiki í stöðunni? Ég bíð spenntur eftir ákvörðun Geirs Hilmars.