Íbúakosningarnar í Hafnarfirði

Nýlega fór fram kosning meðal íbúa Hafnarfjarðar um tiltekna deiliskipulagstillögu. Bæjarstjórnin hafði djörfung og dug til að brjóta blað og gefa íbúunum kost á að láta álit sitt í ljós á máli sem vitað var að skipti þá miklu. Könnun sýndi að um 90% íbúanna kunnu vel að meta þessa ákvörðun og ég trúi því að Hafnfirðingar muni sýna þann félagsþroska að taka niðurstöðunni með stóískri ró.

Það hefur talsvert borið á því í þjóðfélagsumræðunni að menn fari fram með þvætting sem hver étur svo eftir öðrum eins og um heilagan sannleik væri að ræða. Þannig var því haldið fram hér um árið að ákvörðun forseta Íslands um að neita að samþykkja umdeild fjölmiðlalög myndi leiða af sér stjórnarkreppu. Þó að margir legðu sér þessi orð í munn á þeim tíma, vita nú allir að þetta var bull.

Í aðdraganda íbúakosninganna í Hafnarfirði gáfu bæjafulltrúar Samfylkingarinnar ekki upp afstöðu sína til fyrirliggjandi skipulagstillögu. Það var auðvitað afskaplega eðlilegt og hefði farið betur á að aðrir bæjarfulltrúar hefðu fylgt fordæmi þeirra því hlutverk bæjaryfirvalda var eingöngu að koma kosningunni á og setja um hana leikreglur og það var gert. Atkvæðisbærir Hafnfirðingar voru síðan einfærir um að mynda sér skoðun á álitaefninu út frá sínum hagsmunum og þurftu auðvitað ekki á hjálparhönd frá bæjarfulltrúum að halda til að ljúka því verkefni. Þetta sér hver meðalgreindur maður. Samt kemur einhver bullukollurinn og fer að fimbulfamba um kjarkleysi, hjásetu, að „skýla sér á bak við íbúalýðræði“ og ég veit ekki hvað. Og áður en við er litið étur þetta hver upp eftir öðrum án þess að reynt sé að styðja þessar staðhæfingar með rökum. Svona orðræða er auðvitað ekki boðleg og dæmir sig sjálf – úr leik. Þeir sem hana stunda gera ekki miklar andlegar kröfur til sjálfra sín.