Fúl smjörklípa

Björn Ingi Hrafnsson átti verulega erfitt í Kastljósi kvöldsins. Hann gat með engu móti rætt efnislega um afar hæpnar ráðningar á ýmsum Framsóknarmönnum í verkefni tengdum Reykjavíkurborg í skjóli hans sjálfs að undanförnu. Þess í stað reyndi hann alls kyns undanbrögð. Hvernig varst þú ráðinn Helgi? Hvernig var þetta hjá R-listanum? Þetta á ekkert skylt við efnislega umræðu, eða verða óhæfuverk Framsóknarflokksins réttmæt ef einhver annar hefur gert svipaða hluti?

Björn Ingi sýndi nú sitt rétta andlit. Á bak við smælið og vatnsgreiðsluna glitti í kaldrifjaðan framapotara og tækifærissinna sem vílar ekki fyrir sér að beita dónaskap, útúrsnúningum, orðhengilshætti og smjörklípuaðferð til að fela málefnafátæktina og getuleysið til að ræða hæpnar aðgerðir sínar efnislega. Ítrekað greip hann fram í fyrir Degi til að trufla málflutning hans, af því að hann gat ekki mætt honum með efnislegum rökum. Hvílík eymd!

En einn maður var ánægður með frammistöðu Björns Inga, nefnilega Björn Bjarnason enda er þetta orðræða í hans anda. Sá lét nú ekki lögin þvælast fyrir sér þegar hann stóð í ráðningum í Hæstarétt (sjá einnig hér). Með vísun til almennrar málvenju má segja að Birni Inga hafi því tekist að skemmta skrattanum. Þeir sem hafa áhuga á efnislegri umræðu og leiðast pólitísk fíflalæti hafa ekki skemmt sér að sama skapi.

Ég spái því að pólitískt líf Björns Inga nái til loka kjörtímabils hans sem borgarfulltrúa Framsóknar í Reykjavík – og væri það vel. Íslensk stjórnmál þurfa ekki á öðrum smjörklípumanni að halda.

Hér sýnir smjörklípumaðurinn sitt rétta andlit