Feginsdagur fíra

Þessi dagur, sem senn er genginn, hefur verið einkar ánægjulegur og sigursæll fyrir Íslendinga. Rétt áðan voru Íslendingar að sigra Ítali 2:0 á Laugardalsvelli og í morgun sigruðu Íslendingar Slóvena 30:25 í handknattleik á Ólympíuleikunum í Aþenu. Veðrið hefur verið frábært, reyndar í marga undanfarna daga. Og Reykjavíkurborg fagnaði 118 ára fmæli sínu í dag m.a. með því að bjóða upp á skúffuköku í fjölskyldugarðinum í Laugardal.

Það voru vonbrigði að tapa fyrir Króötum í fyrsta leik Íslendinga á Ólympíuleikunum og enn sárara var að tapa nokkuð jöfnum leik gegn Spánverjum niður í 8 marka tap (31:23) á tíu síðustu mínútunum eða svo. Það var því sætt að vinna Slóvena með fimm marka mun í morgun. Ekki má gleyma því að Króatar rétt mörðu eins marks sigur á Slóvenum (27:26) í fyrradag.

Það var haft á orði í fjölmiðlum fyrir vináttuleik Íslendinga og Ítala í kvöld að Ítalir sættu sig ekki við neitt minna en að þeirra menn völtuðu yfir Íslendinga. Það gekk ekki eftir. Íslendingar gerðu út um leikinn á fyrstu tuttugu mínútunum með mörkum Eiðs Smára Guðjohnsen (17. mín) og Gylfa Einarssonar (19. mín). Ítalir áttu ekkert svar við einbeittum Íslendingum sem léku allan tímann eins og sá sem valdið hefur. Þeir 20.204 áhorfendur sem keyptu sig inn á leikinn fengu svo sannarlega eitthvað fyrir aurana sína því, auk sigusins, var leikurinn afar spennandi og skemmtilegur.

Veðurguðirnir, sem hafa hossað okkur undanfarna daga, létu ekki sitt eftir liggja og léku við hvern sinn fingur.

Svona var Ísland í dag.