Erindisleysa Ísafoldar

Reynir Traustason sendi blaðakonu inn á vistheimilið Grund undir fölsku flaggi og birti síðan grein blaðakonunnar í tímariti sínu Ísafold. Skemmst er frá því að segja að uppátækið vakti að vonum hörð viðbrögð stjórnenda Grundar. Reynir varði ritsmíðina og aðferðafræðina með nokkrum þjósti og talaði m.a. um að almenningur ætti rétt á að vita hvernig væri að gamla fólkinu á Grund búið. Þessi lumma er kunnugleg (man einhver eftir tveimur ritstjórum DV sem lummulegir þurftu að taka pokann sinn?) og í rauninni bull. Ónákvæmar og rangar upplýsingar eru verri en engar upplýsingar.

Á vef Morgunblaðsins er greint frá athugun Landlæknisembættisins á aðstæðum vistmanna á Grund og sjónum beint að nokkrum atriðum sem sérstaklega voru gagnrýnd í umfjöllun Ísafoldar. Skemmst er frá því að segja að næsta fá ef nokkur af sannleikskornum Ísafoldargreinarinnar standa eftir óhrakin. Frásögnin af beinbroti gömlu konunnar er „augljóslega röng“, fullyrðingar um skort á hreinlæti og að vistmenn „gangi um í slitnum og skítugum fötum“ eru rangar og hjal um erfiðleika í samskiptum við starfsmenn af erlendu bergi brotna á ekki við rök að styðjast.

Landlæknisembættið kannaði skrifleg gögn, kom í fyrirvaralausar heimsóknir á Grund og ræddi við starfsmenn, vistmenn og einn aðstandanda. Eina athugasemd embættisins var ábending um að starfsmenn væru látnir undirrita trúnaðaryfirlýsingu áður en þeir væru ráðnir.

Reynir Traustason er ágætur og vel meinandi blaðamaður, en í þessu máli lenti hann á villigötum. Vonandi lærir hann af því að seilast ekki aftur í vafasamar aðferðir sorpblaðamennskunnar. Hann þarf ekkert á því að halda.