Alþingiskosningar 2007


Þá er komið að því; kosningadagurinn er runninn upp og komið að því að kjósa. Það vefst auðvitað ekki fyrir mér.

Kosningabaráttan hefur ekki verið af því tagi að menn gangi að kjörborði blóðugir upp til axla eftir hatrömm átök og það kannski eins gott. Samt eru ýmsar rósir sem finna má í fjólugarði kosningabaráttunnar, eða eigum við kannski að segja arfaklær. Heimskulegasta orðræða þessa tímabils var án efa bloggfærsla Ástu Möller um forseta Íslands. Úreldingarverðlaunin fær Geir Haarde fyrir klisjuna um að vinstri stjórn væri það versta sem fyrir gæti komið. Þessi orð virka sérstaklega ankannalega úr munni Geirs sem öðrum fremur ber ábyrgð á háum vöxtum, mikilli verðbólgu og skattpíningu okkar minnstu bræðra. Hann hefur ekki einu sinni menntunarskort sér til afbötunar því hann er hagfræðingur – en stóð að þessu samt! Svo spyr hann í heilsíðuauglýsingum hverjum sé treystandi. Svarið liggur í augum uppi: ekki honum, sem hafði tækifærin og nýtti þau ekki.

Nei, það vefst ekki fyrir mér hvað á að kjósa. Ég er stoltur jafnaðarmaður og kýs þess vegna Samfylkinguna. Hér að ofan er raunsæ spá mín um úrslit kosninganna, en ég vona að Samfylkingin fái jafnvel meira fylgi en þarna er sýnt og að útreið Framsóknar verði sýnu verri en hér er spáð.