Aðhalds er þörf

Vísir.is greinir frá því í dagDavíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafi gert með sér samkomulag um að fella öll ákvæði út úr því fjölmiðlafrumvarpi sem hefur legið fyrir Alþingi að undanförnu nema ákvæði um brottfall fyrri laga og breytingu á skipun útvarpsréttarnefndar. „Hluti af niðurstöðum viðræðna Halldórs og Davíðs er að stofnuð verði nefnd um málefni stjórnarskrárinnar. Stefnt verður að því að festa í stjórnarskrá þá framkvæmdahefð sem verið hefur á Íslandi frá stofnun lýðveldisins, það er að segja að forseti framkvæmi einungis vald ráðherra. Forsetinn yrði eftir því valdalaus og málskotsréttur hans til þjóðarinnar, eins og honum var beitt 2. júní , væntanlega afnuminn.“ Mbl.is orðar þetta þannig að búast megi „við að lögð verði fram yfirlýsing eða þings­ályktunar­tillaga þar sem m.a. verður lýst yfir vilja til að endurskoða 26. grein stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta Íslands.“

Gangi þetta eftir, er það í sjálfu sér ágætt að þeir lagsbræður, Davíð og Halldór, hafi loksins séð að sér og dregið ólög sín til baka. Hitt er ískyggilegt að þessir peyjar haldi að þeir komist upp með að semja sín í milli um breytingar á hinum og þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Henni verður ekki breytt eftir geðbrigðum Davíðs Oddssonar eða að undirlægjuhætti Halldórs Ásgrímssonar. Allur ferill þessa svonefnda fjölmiðlamáls, frá upphafi til enda, undirstrikar nauðsyn þess að valdasjúkum stjórnmálamönnum sé veitt aðhald. Gleymum því ekki að hefði forseti Íslands ekki nýtt málskotsréttinn, sætum við uppi með fjölmiðlafrumvarpið eins og Alþingi gekk frá því í vor.  Mér er það mjög til efs að þjóðin sætti sig við að málskotsrétturinn verði afnuminn og pólitíkusar geti valsað um eftirlits- og aðhaldslausir, sérílagi eftir að áðurnefndir radíusbræður íslenskra stjórnmála hafa viðrað gamansemi sína. Ég – fyrir minn hatt – tek það ekki í mál!